8. mars 2018

Háaleitisskóli 10 ára

Háaleitisskóli 10 ára

Dagana 21. og 22. febrúar voru haldnir þemadagar í Háaleitisskóla. Að þessu sinni var unnið með þemað „Fjölmenning“ á öllum stigum skólans. Nemendur á yngsta- og miðstigi unnu fjölbreytt verkefni á ýmsum stöðvum í aldursblönduðum hópum og nemendur á elsta stigi unnu einnig í aldursblönduðum hópum ákveðin verkefni tengd þemanu. Þemadagar voru að vissu marki undirbúningsdagar fyrir afmælishátíð skólans, sem haldin var 23. febrúar s.l., en hann fagnar tíu ára afmæli sínu á þessu ári. Yfirskrift afmælishátíðarinnar var einmitt fjölmenning en í vetur hefur verið unnið þróunarverkefni þar sem kennarar hafa verið að þróa fjölbreytta kennsluhætti til þess að koma til móts við margbreytilega nemendahópa. Nemendur hafa verið að fræðast um þjóðerni nemenda skólans og þannig fengið tækifæri til að kynnast ólíkri menningu, tungumálum, trúarbrögðum, hefðum og siðum. Markmiðið er að auka víðsýni nemenda og samkennd. Boðið var upp á hátíðardagskrá á sal skólans þar sem flutt voru ávörp, starfmenn voru heiðraðir og nemendur, starfmenn og verðandi nemendur fluttu atriði. Að lokinni hátíðadagskrá bauðst gestum að þiggja veitingar í íþróttasalnum auk þess að ganga um skólann og skoða afrakstur þemadaga. Vert er að geta þátttöku foreldra á afmælishátíðinni en þeir komu með muni, myndir o.fl. frá ýmsum þjóðlöndum til að sýna gestum auk þess að fylla gnægtarborð af alþjóðlegum veitingum. Mikil ánægja er með hvernig til tókst á þemadögum og afmælishátíð skólans og er starfsfólk skólans þakklát öllum sem komu að þessu skemmtilega verkefni með okkur og glöddust með okkur á afmælishátíðinni.

Myndir frá afmælishátíðinni eru komnar í myndasafnið

 

  • FFGÍR
  • Heimili og Skóli
  • SAFT
  • Reykjanesbær