Heimsókn forseta Íslands
Síðastliðin föstudag, 7. nóvember bar að garði hátíðleg heimsókn þegar forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, heimsótti okkur í Háaleitisskóla. Tilefni heimsóknarinnar voru hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna sem að skólinn hlaut í síðustu viku en einnig að kynna sér starf skólans, hitta nemendur og starfsfólk. Forsetinn var leiddur um skólann af skólastjórnendum og kynnti sér fjölbreytt verkefni sem unnin hafa verið af nemendum á þessari önn. Heimsóknin hófst á stuttri móttöku í anddyri skólans þar sem nemendur í 1. bekk höfðu útbúið veifur. Að því loknu fóru gestir í vinnustofur og kennslustofur, þar sem forsetinn ræddi við nemendur um námið. Nemendur voru til fyrirmyndar og ég veit að starfsfólk Háaleitisskóla tekur undir með mér þegar ég segi og skrifa hversu stolt við erum af okkar nemendum.
Eftir göngu um skólann biðu allir nemendur eftir forsetanum á sal skólans. Þar flutti fulltrúi nemenda, Tinna Sesselja Gísladóttir, ávarp og bauð forsetann velkomin. Eftir ávarp Tinnu voru lesnar upp kveðjur til forsetans á öllum tungumálum sem eru að finna í skólanum, um 30 talsins. Að lokum sungu nemendur í 6. og 7. bekk lagið Draumar geta ræst eftir söngvarann Jón Jónsson og í síðasta erindinu tók allar salurinn undir sem skapaði mikla lukku.
Í ávarpi sínu til nemenda hvatti forsetinn alla viðstadda að vera riddara kærleikans, við viljum lifa í samfélagi þar sem kærleikurinn ræður ríkjum.
Fyrir hönd starfsfólks og nemenda Háaleitisskóla þökkum við forseta Íslands fyrir þessa merku heimsókn. Við erum svo sannarlega stolt af framlagi nemenda og starfsfólks sem gerðu daginn eftirminnilegan. Heimsókn forseta Íslands er ánægjuleg viðurkenning á það öfluga skólastarfi sem unnið er á hverjum degi, þar sem hver nemandi fær tækifæri til að vaxa og blómstra. Við hlökkum til að byggja á þessum góða grunni á komandi misserum.




