Einelti

Tilkynna einelti

Háaleitisskóli starfaði eftir eineltisáætlun Olweus í nokkur ár en síðustu ár höfum við innleitt forvarnarverkefnið Stöndum saman sem er í anda PBS eða Stuðningur við jákvæða hegðun. Innleiðing á þessu verkefni hófst haustið 2011.  Í skólanum starfar eineltisteymi sem vinnur að viðhaldi forvarna gegn einelti auk þess sem teymið er kallað til komi upp eineltismál. Í teyminu eru:  námsráðgjafi skólans, deildastjórar, sérkennari eldra stigs og iðjuþjálfi. Hafi foreldrar grun um einelti er mikilvægt að þeir tilkynni það hér. Þegar tilkynning um grun um einelti berst skóla hefst ákveðið ferli hjá eineltisteymi skólans. 

Starfsfólk Háaleitisrskóla lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verði liðið í skólanum. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og til að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Háaleitisskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju.

Hvað er einelti?

Einelti er langvarandi ofbeldi, líkamlegt og/eða andlegt sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi. Þetta þarf að vera endurtekið aftur og aftur og sá sem fyrir eineltinu verður er ekki fær um að verja sig. Stríðni, átök og einstakur ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis. Álitið er að stríðni verði að einelti þegar um endurtekna áreitni í langan tíma af einum eða fleiri er að ræða og hegðunarmynstur og líðan þolandans breytist vegna hennar. Ekki er um einelti að ræða ef atvikið gerist einu sinni.

 

Hugsanlega er um einelti að ræða ef nemandinn:

·         Er hræddur við að ganga einn í skólann eða heim.

·         Vill ekki fara í skólann.

·         Kvartar undan vanlíðan á morgnana.

·         Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.

·         Fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur.

·         Byrjar að stama, missir sjálfstraustið.

·         Leikur sér ekki við önnur börn.

·         Neitar að segja frá hvað amar að.

·         Kemur heim með marbletti eða skrámur sem hann getur ekki útskýrt.

·         Verður árásargjarn og erfiður viðureignar.

·         Kemur heim í öllum hléum í skólanum.

·         Vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum.

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir:

·         Mikilvægt er að börn séu alin upp við jákvæða athygli. Þau læri að setja sig í spor annarra, sýna umburðarlyndi og bera virðingu fyrir öðrum.

·         Allir nemendur skulu fræddir um stefnu skólans um að einelti og ofbeldi leyfist ekki.

·         Námsefni og samvinnuleikir séu valdir með tilliti til aldurs.

·         Nemendur velji sig ekki í hópa án ábyrgðar fullorðins.

·         Tryggt sé að gæsla/virkt eftirlit sé í frímínútum og á þeim stöðum þar sem nemendur dvelja utan kennslustunda.

·         Tekið verði á samskiptavandamálum þegar þau koma upp.

·         Starfsfólk skólans verði nemendum fyrirmynd í framkomu við þá og aðra.

Hér eru nokkrar vefsíður sem fjalla um einelti:

  • Facebook
  • Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
  • Heimili og Skóli
  • SAFT
  • Reykjanesbær