Námsmat

Námsmat í Háaleitisskóla Ásbrú

Í  námsmatinu meta kennarar framvindu námsins og hæfni nemenda jafnóðum yfir skólaárið og gefa þeim nemendum sem hafa ekki náð ákveðinni hæfni tækifæri til að bæta sig. Þegar kennarar leggja inn ákveðin verkefni eða kannanir liggja til grundvallar ákveðin hæfniviðmið. Þessi hæfniviðmið eru metin jafnóðum og verkefnum lýkur eða í lok námslotu ef um leiðsagnarmat er að ræða.

Á heimasíðu Háaleitisskóla er að finna bekkjarnámsskrár hvers námshóps. Þar koma fram hæfniviðmið sem þjálfuð eru í námsgrein, kennsluaðferð og námsmat auk upplýsingar um námsgögn, tímafjölda og nafn kennara. Á Mentor eru námsskrár fyrir öll fög sem unnar eru upp úr bekkjarnámskrám og kennarar meta jafnt og þétt yfir skólaárið.

Nemendur og foreldrar hafa alltaf aðgang að námsmatinu og er því mikilvægt að fylgjast vel með því á Mentor. Námsmatið er lifandi og breytist reglulega yfir skólaárið, markmiðið er að það sé leiðbeinandi, og gefi nemendum og foreldrum tækifæri til að sjá hvaða þætti er verið að vinna með hverju sinni og styrki nemendur í að ná þeim hæfniviðmiðum.

Fimm tákn eru notuð við umsagnirnar á hæfniviðmiðum og verkefnum yfir skólaárið. Það er framúrskarandi; hæfni náð; á góðri leið; þarfnast þjálfunar; og  hæfni ekki náð.

Nemendur í sértæku námsmati vinnur eftir einstaklingsáætlun og þar að leiðandi með önnur hæfniviðmið en aðrir nemendur í árgangi (fer eftir innihaldi einstaklingsnámskrár nemandans). Foreldrar skulu ávallt vera upplýstir um að barnið þeirra er í sértæku námsmati og skrifa undir einstaklingsáætlun barnsins áður en námsmat er birt.

 

Námsmat að vori.

Lokamat er tekið saman við lok skólaárs og munu nemendur í 1.-7. bekk fá að vori eftirfarandi námsmat; lesferil, lesskilningur, umsögn frá umsjónakennara og vísun í hæfnikort í öllum námsgreinum.

Í 8.-10. bekk fá nemendur áfram námsmat í öllum greinum þar sem lokaeinkunn er gefin í bókstöfum að vori að undanskildum valfögum þar er gefið lokið/ólokið í hverju fagi.

Bókstafirnir þýða eftirfarandi:


A         Nemandi sýnir framúrskarandi hæfni á því sviði sem viðmið námssviðsins lýsa.

B+       Nemandinn hefur náð öllum hæfniviðmiðum B og að hluta til þeim viðmiðum sem á

            við einkunnina A.

B         Nemandi sýnir góða hæfni á því sviði sem viðmið námssviðsins lýsa.

C+      Nemandinn hefur náð öllum hæfniviðmiðum C og að hluta til þeim viðmiðum sem á

            við einkunnina B.

C          Nemandi sýnir að hann hefur að einhverju leyti, en ekki öllu, náð þeirri hæfni sem

viðmið námssviðsins lýsa.

D         Nemandi hefur ekki náð þeirri hæfni sem matsviðmið námssviðsins lýsa.

 

Matsviðmið í lok 10.bekkjar.

Í lok 10.bekkjar útskrifast nemendur einnig með matsviðmið en Aðalnámskrá grunnskóla eru sett fram matsviðmið fyrir 10.bekk fyrir námsgreinar og námsvið. Matsviðmið eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni, á valdi sínu.

Matsviðmið lýsa hæfni á kvarða og er notast við kvarðann:

A        B+      B        C+      C        D  

Matsviðmið í B eru byggð á hæfniviðmiðum í aðalnámskrá og framsetning þeirra er með þeim hætti, að gera má ráð fyrir að þorri nemenda nái þeirri hæfni sem þar er tilgreind. A fá þeir sem sýna framúrskarandi hæfni og C fá þeir sem ekki standast fyllilega þær kröfur sem gerðar eru í B viðmiðum. Ekki eru sett viðmið fyrir D, því sá vitnisburður er notaður þegar nemandi uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru í C viðmiðum. Skóli gerir þá sérstaka grein fyrir hæfni viðkomandi nemanda. Bætt hefur verið við kvarðann B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í aðalnámskránni. Ekki verða útbúin matsviðmið fyrir þessa viðbót heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C +. A þýðir þannig ekki að nemandinn hafi getað t.d. 80% af verkefninu eða prófinu heldur að hann hafi getað leyst þau verkefni eða prófhluta sem kölluðu á flóknari hæfni en hin. Þennan matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda úr 10. bekk.

New grading system (english translation)

  • FFGÍR
  • Heimili og Skóli
  • SAFT
  • Reykjanesbær