Málstefna Háaleitisskóla
„Tungumálið er lykillinn að hjarta þjóðarinnar.” - Halldór Laxness
Háaleitisskóli er grunnskóli þar sem um 70% nemenda eru fjöltyngdir. Íslenska er sameiginlega tungumálið í Háaleitisskóla og skólamál nemenda.
Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð mikil áhersla á ábyrgð gagnvart íslensku máli. Þar er fjallað m.a. um mikilvægi traustrar kunnáttu í móðurmáli sem meginundirstöðu staðgóðrar menntunar. Þar kemur fram að lestur og tjáning í ræðu og riti eru nauðsynlegar forsendur þátttöku í samfélaginu. Einnig er tekið fram að skólinn, ásamt heimilum nemenda, ber ábyrgð á máluppeldi barna og að íslenskukennsla hefur ákveðna sérstöðu meðal annarra námsgreina. Þetta felur í sér að skólinn þarf að stuðla að því að nemendur nái góðri færni í íslensku, bæði í ræðu og riti.
Það er því hlutverk alls starfsfólks Háaleitisskóla að styðja við íslenskunám allra nemenda á skólatíma og veita þeim fjölbreytt tækifæri til að æfa sig í íslensku, bæði munnlega og skriflega.
Virðing fyrir tungumálum: Lykillinn að menningu og samskiptum
Starfsfólk Háaleitisskóla ber virðingu fyrir öllum tungumálum og hvetur nemendur og foreldra þeirra til að að efla kunnáttu sína í eigin tungumálum.
Skólastarf
- kunnátta í íslensku er forsenda farsællar skólagöngu og þátttöku í íslensku samfélagi og valdeflir nemendur.
- í kennslustundum er íslenska sameiginlega skólamálið okkar. Við kennum og lærum á íslensku.
- samskipti milli nemenda og starfsfólks fara fram á íslensku.
- námsorðaforði er markvisst lagður inn.
Kennarar og starfsfólk Háaleitisskóla
- eru meðvituð um gildi endurtekningar og gefa nemendum fjölbreytt tækifæri til að æfa sig á nýjum orðum
- leggja sig fram við að spyrja opinna spurninga og eiga gagnvirk samtöl við nemendur
- hvetja nemendur til að tjá sig á íslensku og æfa sig að nota skólamálið, íslenskuna
- byggja kennslustundir þannig upp að nemendur tjái sig á íslensku, að það sé virk málnotkun í tímum og lögð er áhersla á að borin sé virðing hvert fyrir öðru
- hvetja nemendur til að leika sér með tungumálið og ræða við nemendur reglulega um mikilvægi öflugs orðaforða á öllum tungumálum
- vinna að því að tengja íslenskuna við önnur tungumál í skólanum
- eru meðvitaðir um að við erum öll málfyrirmyndir og íslenskukennarar og að við notum ríkulegan íslenskan orðaforða, að við kennum og lærum á íslensku
Við skólasetningu og önnur tækifæri leggur skólastjóri áherslu á notkun íslenskunnar í Háaleitisskóla og mikilvægi þess að nemendur æfi sig. Í Háaleitisskóla er stefnt á að bjóða upp á íslenskukennslu fyrir starfsfólk með annað móðurmál en íslensku.
Í daglegu starfi eru nemendur hvattir til að æfa sig og lesa einnig á sínum tungumálum. Kennarar og starfsfólk eru hvattir til að sýna tungumálum nemenda áhuga og nýta tækifæri sem gefast til að efla fjölbreytta tungumálakunnáttu.
Á göngum skólans og skólalóð
Íslenska er sameiginlega tungumálið í Háaleitisskóla, á göngum og á skólalóð. Í Háaleitisskóla eru nemendur hvattir til að tala íslensku svo að allir geti tekið þátt í leik og starfi. Í Háaleitisskóla leggjum við okkur fram um að kenna nemendum að bera virðingu fyrir öðrum og útiloka ekki aðra með tungumálinu.
Skilaboð frá skóla og samskipti
Skilaboð frá Háaleitisskóla eru send heim á íslensku auðvelt er að þýða í þýðingarforriti yfir á önnur tungumál. Kennarar og starfsfólk nýta túlkaþjónustu ef nauðsyn ber til.
Túlkaþjónusta
Foreldrar, kennarar og starfsfólk geta óskað eftir túlkaþjónustu í samtölum. Íslenskan er skólamál Háaleitisskóla og við túlkum íslensku yfir á tungumál fölskyldunnar sé því við komið. Mikilvægt er að allir geti skilið upplýsingarnar, að allir hafi rödd og geti tekið þátt í samtalinu.
Enska
Enskan er kennd sem erlent tungumál. Háaleitisskóli er íslenskur grunnskóli sem undirbýr nemendur sína fyrir áframhaldandi nám og búsetu á Íslandi. Í Háaleitisskóla nota kennarar íslensku í kennslustundum. Enska er ekki notuð sem millimál yfir í íslensku. Ef það er nauðsynlegt þá er hægt að nota þessa aðferð til viðmiðunar:
- útskýra fyrst á íslensku
- útskýra aftur á ensku (ef nemandi hefur þekkingu á ensku)
- útskýra síðan aftur á íslensku
Innlögn í bekk eða hóp er alltaf á íslensku. Ef það eru einstaklingar sem skilja ekki hópfyrirmæli á íslensku þá er hægt að nýta aðferðina hér fyrir ofan. Einnig er hægt að nýta myndir, látbragð, tákn með tali og þýðingarforrit.
Hagnýtar upplýsingar
Lindarbraut 624
235 Reykjanesbæ
Haaleitisskoli@haaleitisskoli.is