Ný aparóla formlega opnuð á Ásbrú

Föstudaginn 5. maí var ný aparóla opnuð formlega á leiksvæðinu við Skógarbraut á Ásbrú. Nemendur skólans fengu það hlutverk að fara fyrstu ferðirnar. Aparólan var ein að þeim hugmyndum sem kom úr hugmyndavinnu nemenda skólans og hönnunarteymisins ÞYKJÓ á síðasta ári.
Kadeco og Reykjanesbær fengu nemendur í Háaleitisskóla með í vinnustofur um það hvað hægt væri að gera til að bæta umhverfið á Ásbrú, en hönnunarteymið ÞYKJÓ hafði umsjón með vinnustofunum. Vinnustofurnar voru vel heppnaðar og voru valdar Verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands í fyrra. Það sem var skemmtilegast við verkefnið var að sjá hvað nemendur voru áhugasamir og spennt fyrir því að geta haft raunveruleg og uppbyggileg áhrif á umhverfi sitt.
Barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar, BAUN, var sett þennan dag og af því tilefni var aparóla formlega tekin í notkun við leiksvæðið sem var sett upp af Reykjanesbæ með dyggum stuðningi Verne Global.
Krakkarnir voru himinlifandi með róluna, en fulltrúar frá Reykjanesbæ, Háaleitisskóla og Verne Global voru viðstaddir
opnunarathöfnina.