22. janúar 2020

Háaleitisskóli verður UNICEF réttindaskóli

Háaleitisskóli verður UNICEF réttindaskóli

Í dag, miðvikudaginn 22. janúar, skrifuðu forsvarsmenn UNICEF á Íslandi og Háaleitisskóla í Reykjanesbæ undir formlegan samstarfssamning um að Háaleitisskóli verði fyrsti skólinn á Suðurnesjum til að verða Réttindaskóli UNICEF. Viðstödd undirritunina voru, Bergsteinn Jónsson framkvæmdarstjóri UNICEF, Pétur Hjörvar Þorkelsson réttindafræðslufulltrúi, Jóhanna Sævarsdóttir skólastjóri Háaleitisskóla, Elíza Newman deildarstjóri Háaleitisskóla ásamt kennurum í UNICEF teymi skólans.

Í haust hóf Háaleitisskóli þátttöku í tilraunaverkefni sem miðar að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í allt skóla- og frístundastarf.  Verkefnið kallast Réttindaskóli og Réttindafrístund UNICEF og er alþjóðlegt vottunarverkefni sem hefur síðastliðinn áratug verið innleitt með góðum árangri í þúsundum skóla um allan heim.  Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem taka þátt í verkefninu geta öðlast viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi sem Réttindaskólar og Réttindafrístund.

Um verkefnið

Að vera Réttindaskóli UNICEF felur í sér að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í öllu skólastarfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, efla jákvæð samskipti, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er einnig skapaður rammi utan um þau ólíku sjónarhorn, stefnur og gildi sem skólum er ætlað að vinna eftir, svo sem aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna – sem var lögfestur hér á landi árið 2013.

Betri skóli með þátttöku barnanna

Rannsóknir sem gerðar hafa verið í meira en 1.600 Réttindaskólum í Bretlandi hafa sýnt afar jákvæðar niðurstöður. Einelti og ofbeldi í skólunum minnkaði, börnin sýndu aukið umburðarlyndi og skilning á fjölbreytileika, líðan barna batnaði og starfsánægja fullorðinna jókst umtalsvert.  Og það sem er líka mikilvægt, umræða um réttindi barna og Barnasáttmálann átti sér stað inni á heimilum barnanna. 

  • FFGÍR
  • Facebook
  • Heimili og Skóli
  • SAFT
  • Reykjanesbær