Móttökuáætlun nýnema
Móttökuáætlun Háaleitisskóla Ásbrú
Móttökuáætlunin er tvískipt
- Nýnemi með íslensku sem móðurmál
- Nýnemi með annað móðurmál en íslensku
(Hagnýtt efni varðandi móttöku og undirbúning er að finna á Fjölmenningarvef barna ).
Ritari Háaleitisskóla tekur alltaf við formlegri innritun nýnema en svo tekur móttökuteymi Háaleitisskóla við og sér um undirbúning fyrir móttökuviðtalið og auk þess tekur teymið móttökuviðtalið.
Móttökuteymi Háaleitisskóla er skipað: Stjórnanda, náms- og starfsráðgjafa, umsjónarkennara en hann er auk þess líka tengiliður við fjölskylduna, fulltrúa/-um úr fjölmenningarteymi.
Almennt
Nemandi byrjar ekki í skólanum fyrr en móttökuviðtalið hefur farið fram. Móttökuviðtalið fer fram innan við viku eftir að nemandi hefur verið skráður í skólann.
Markmið móttökuviðtalsins er tvíþætt annars vegar að afla upplýsinga um nemandann s.s. bakgrunn, móðurmál, námslega stöðu, áhugamál, væntingar o.þ.h. þannig að hægt sé að byggja námið á reynslu og stöðu nemandans. Hins vegar að veita upplýsingar um skólann s.s. upplýsingar um hvað nemandinn á að hafa með sér í skólann, nesti, hádegismat, frístundaskólann, foreldrafélagið, væntingar skólans til nemenda og foreldra o.s.frv. Það er jafnframt mikilvægt að fara almennt yfir það hvað er í boði fyrir börn og ungmenni í bæjarfélaginu þ.e. íþrótta- og tómstundastarf. Einnig þarf að kynna foreldrum Mentor og tryggja að foreldrar og nemendur fái aðgang að Mentor. Einnig þarf að kynna foreldrum fyrir Mitt Reykjanes.
Í móttökuviðtalinu er nemanda og foreldri/forráðamanni afhent skólahandbókin sem er upplýsingabæklingur um starf skólans og þá þjónustu sem hann bíður upp á en mikilvægt er að nemendur og foreldrar/forráðamenn fái í hendurnar allar þær upplýsingar á fyrsta fundi.
Við lok móttökuviðtals skal sýna foreldrum og nemendum skólann, frístundaskólann og annað sem þarf og ákveða hvenær barnið byrjar í skólanum.
Sjálfsagt er að hvetja móður eða föður til að vera með barni sínu í skólanum fyrstu dagana eins og þau hafa tækifæri til og best þykir henta. Þannig geta foreldrarnir stutt barnið sitt um leið og þeir kynnast því samfélagi sem á eftir að hafa svo mikil áhrif á barnið þeirra. Þá er gott að setja niður áætlun um það hvenær umsjónarkennarinn og foreldrar hittast næst og hvernig samskiptum muni best háttað.
Nýnemi með annað móðurmál en íslensku
Móttökuáætlun vegna nemenda með íslensku sem annað mál skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólann.
Túlkur er pantaður fyrir móttökuviðtalið ef foreldrar nemanda tala og skilja ekki íslensku, þar sem að samkvæmt 16. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 kemur fram að það er réttur foreldra sem ekki tala og skilja íslensku að fá túlkaþjónustu.
Í 16. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir m.a.
„Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu. Túlkaþjónusta skal vera til staðar svo lengi sem foreldrar hafa þörf fyrir hana.“
Hér má finna mat á færni nemenda í stærðfræði og lestri á nokkrum tungumálum:
http://tungumalatorg.is/sk/matstæki-moðurmals/
Hafa ætti í huga að skólinn er stundum fyrsti og eini tengiliður fjölskyldunnar við íslenskt samfélag. Vönduð móttaka í skólanum getur því skipt sköpum um nánustu framtíð fjölskyldunnar.
Verkaskipting móttökuteymis, skipuleggja þarf móttökuviðtalið og ákveða hverjir eigi að taka þátt í því.
Stjórnandi er ábyrgðaraðili skólans og pantar hann túlkinn fyrir viðtalið.
Náms- og starfsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda og stendur vörð um velferð þeirra. Hann liðsinnir nemendum í málum er snerta skólavist þeirra og veitir þeim ráðgjöf um hvernig þeir geti fengið úrlausn sinna mála. Hann sér um að skipuleggja móttökuviðtalið og að boða alla aðila teymisins í viðtalið og veitir þeim þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um nýnemann.
Umsjónarkennari ber ábyrgð á því að aðrir kennarar og starfsmenn sem vinna í skólanum með nýja nemandanum fái að vita um komu hans og einnig ber hann ábyrgð á því að koma upplýsingum um hann til allra sem koma að honum þ.m.t. íþrótta- og sundkennara og frístundakennara. Auk þess er umsjónarkennarinn líka fjölskyldu-tengiliður þar sem að hann er þegar í miklum samskiptum við fjölskyldu nemandans.
Fulltrúi fjölmenningarteymis er sá aðili sem vinnur að aðlögun nemandans í samráði við umsjónarkennara og kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál.
Mikilvægt er að foreldrar fái í hendurnar á fyrsta fundi allar upplýsingar um starf skólans og þá þjónustu sem hann bíður upp á.
Þessar upplýsingar koma fram í skólahandbókinni en það þarf einnig að ræða þessa punkta í viðtalinu.
- Upplýsingar um skólann, heimilisfang og símanúmer
- Upplýsingar um sérfræðiþjónustu fræðsluskrifstofunnar
- Stundatöflu, best að hafa hana myndræna og með texta
- Upplýsingar um íþróttatíma og hvað þurfi að hafa með í þá, gæti einnig verið myndrænt
- Upplýsingar um umsjónarkennarann og viðtalstíma hans og verkefnisstjóra í íslensku sem öðru máli
- Upplýsingar um fyrirkomulag og markmið foreldraviðtala
- Upplýsingar um nám í íslensku sem öðru tungumáli sem og námið í bekk
- Upplýsingar um námsmat
- Upplýsingar um námsráðgjöf í skólanum
- Upplýsingar um skólamáltíðir, nesti og drykki
- Myndrænar skólareglur
- Upplýsingar um skólaheilsugæslu
- Upplýsingar um tómstundastarf í Reykjanesbæ
- Tölum móðurmálið, http://www.ryerson.ca/mylanguage/hold_on/, vefur um mikilvægi móðurmálsins