Vegna Covid-19 kórónaveirunnar
Áhrif COVID-19 veirunnar halda áfram að hafa áhrif á okkar daglega líf og störf. Mikilvægt er að gæta vel að öllum sóttvörnum og fara í einu og öllu að ráðleggingum sóttvarnalæknis. Einnig er gott að nemendur sem eru kvíðnir ræði við kennara og námsráðgjafa, en mikilvægt er að halda ró sinni meðan þetta ástand varir.
Almennt gildir að mæta ekki í skólann með kvef eða önnur einkenni sem svipar til einkenna kórónaveirunnar. Ef nemandi er að koma frá útlöndum og er í vafa um hvort rétt væri að fara í sóttkví hvetjum við til þess að hringt sé í símanúmerið 1700 og fengin ráðgjöf um það áður en mætt er í skólann.
Það er mjög mikilvægt að við hjálpumst öll að við að hægja á útbreiðslu veirunnar. Við erum öll ábyrg og þetta er verkefni okkar allra. Það er mikilvægt að forráðamenn láti okkur vita í síma 420-3050 eða á haaleitisskóli@haaleitisskóli.is ef nemandi smitist eða þarf að vera heima í sóttkví. Einnig óskum við eftir því að forráðamenn láti vita ef einhver er í sóttkví á heimili nemanda í Háaleitisskóla. Að öðru leyti eru veikindatilkynningar með sama hætti og venjulega.
Við viljum ítreka við forráðamenn að fylgjast vel með tilmælum landlæknis en nýjustu upplýsingar má finna hverju sinni hér https://www.landlaeknir.is/koronaveira/. Um síðustu helgi komu út leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti vegna COVID-19 sem forráðamenn eru hvattir til að kynna sér en þær má finna á ofangreindri vefsíðu.
Aðgerðir Háaleitisskóla miða að því að koma í veg fyrir að smit berist á milli einstaklinga og því er lögð mikil áhersla í skólanum á handþvott og hreinlæti. Starfsfólk ásamt hjúkrunarfræðingi skólans veitir nemendum fræðslu um hreinlæti. Greiður aðgangur er að spritti til sótthreinsunar í skólanum þar sem sprittbrúsar eru í öllum skólastöfum og rýmum. Meiri þungi en áður er á sótthreinsun snertiflata eins og hurðahúna, slökkvara og handriða.
Samkvæmt beiðni frá Ríkislögreglustjóra þá hefur sjálfsskömmtun verið hætt hjá Skólamat. Mat, meðlæti, vatni og leirtaui er skammtað til nemenda. Vegna breytinga á sjálfsskömmtun verður matseðli breytt og hann einfaldaður að hluta.