Málstefna skólans
Við í Háaleitisskóla erum með mjög fjölbreyttan nemendahóp þar sem 70% nemenda eru fjöltyngdir. Íslenska er sameiginlega tungumálið í Háaleitisskóla og skólamál nemenda.
Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð mikil áhersla á ábyrgð gagnvart íslensku máli. Þar er fjallað m.a. um mikilvægi traustrar kunnáttu í móðurmáli sem meginundirstöðu staðgóðrar menntunar. Þar kemur fram að lestur og tjáning í ræðu og riti eru nauðsynlegar forsendur þátttöku í samfélaginu. Einnig er tekið fram að skólinn, ásamt heimilum nemenda, ber ábyrgð á máluppeldi barna og að íslenskukennsla hefur ákveðna sérstöðu meðal annarra námsgreina. Þetta felur í sér að skólinn þarf að stuðla að því að nemendur nái góðri færni í íslensku, bæði í ræðu og riti.
Það er því hlutverk alls starfsfólks Háaleitisskóla að styðja við íslenskunám allra nemenda á skólatíma og veita þeim fjölbreytt tækifæri til að æfa sig í íslensku, bæði munnlega og skriflega.
Virðing fyrir tungumálum: Lykillinn að menningu og samskiptum
Starfsfólk Háaleitisskóla ber virðingu fyrir öllum tungumálum og hvetur nemendur og foreldra þeirra til að efla kunnáttu sína í eigin tungumálum.
Sett hefur verið saman plagg sem heitir Málstefna Háaleitisskóla og má sjá hana hér.